Hátt í 40 íþróttamenn boðaðir í fyrstu æfingabúðir ársins


Fyrstu æfingabúðir yfirmanna afrekesmála ÍF fara fram dagana 19. og 20. janúar næstkomandi í Laugardal. Hátt í 40 íþróttamenn úr sjö íþróttagreinum munu þá hittast undir leiðsögn þeirra Kára Jónssonar og Inga Þórs Einarssonar.

 


Afreksáætlun ÍF – TOKYO 2020 

Árið 2017 var farið í það að straumlínulaga útfærslu á afreksáætlun Íþróttasambands fatlaðra. Til verksins voru fengnir tveir vanir menn, Ingi Þór Einarsson og Kári Jónsson. Þeir notuðu seinnipart vetrar til að skipuleggja og hanna áætlun sem myndi henta öllum íþróttum innan ÍF og sem flestum íþróttamönnum sem eiga við einhverjar fatlanir að stríða. Síðar var svo ákveðið að ráða Inga og Kára til að stjórna öllum landsliðsverkefnum ÍF í samráði við Ólympíuráð/Afreksráð ÍF og stjórn ÍF. Aftur á móti verða ekki ráðnir sérstakir „landsliðsþjálfarar“ í hverri íþróttagrein. Hver íþróttamaður er með sinn persónulega þjálfara eða félagsþjálfara og þörf fyrir fylgd þjálfara á mót er metin gagnvart hverjum íþróttamanni fyrir sig og verkefnum hans.

Markmið Tokyo 2020 áætlunarinnar

Markmið ÍF er að eiga þátttakendur í úrslitum og eða á verðlaunapalli á Paralympics og á þeim stórmótum sem ÍF tekur þátt í. Stærsti viðburðurinn í þessari nýju áætlun eru Paralympics í Tokyo 2020. Einnig er markmiðið að eiga á hverjum tíma áberandi íþróttafólk sem ber hróður fatlaðra íþróttamanna á Íslandi hátt. Þannig virka þeir hvetjandi á fatlaða einstaklinga til að stunda íþróttir og/eða til sjálfsbjargar og virkni í samfélaginu.

Helstu áhersluatriði áætlunarinnar á þessu ári og þrjú hin næstu:

2017 Afreksmennska 1 (hvað er Afreksmennska?)  

Markmið: HM ár þar sem stefnt er að verðlaunum. Ná keppendum inn á vetrarleika IPC í PyeongChang og ná góðri stöðu á heimslistum fyrir EM 2018. 

Haldnar verða fjórar sameiginlegar æfingabúðir innanlands. 

25 til 35 íþróttamenn auk yfirþjálfara, fararstjóra, stoðteymis og persónulegra þjálfara. 


2018 Afreksmennska 2 (þáttur íþróttamannsins) 

Markmið: EM ár þar sem stefnt er að verðlaunum í þeim greinum sem keppt er í, ná góðri stöðu á heimslistum fyrir HM. Vetrarleikar IPC í PyeongChang 9.–18. mars. Klára allar flokkanir fyrir líklega Tokyo-fara.  

Þrennar (3) sameiginlegar æfingabúðir innanlands með 20 til 30 íþróttamönnum, auk yfirþjálfara, fararstjóra, stoðteymis og persónulegra þjálfara. 

Einar (1) sameiginlegar æfingabúðir erlendis í apríl/maí fyrir EM kandídata.  

12 til 15 íþróttamenn + yfirþjálfarar, fararstjórar, stoðteymi og persónulegir þjálfarar. 


2019 Afreksmennska 3 (hópurinn – að sækja styrk hvert til annars) 

Markmið: Að ná A lágmörkum fyrir Paralympics til að auka möguleika okkar að fá „kvóta“. 

Þrennar (3) sameiginlegar æfingabúðir innanlands með 15 til 25 íþróttamönnum auk yfirþjálfara, fararstjóra, stoðteymis og persónulegra þjálfara. 

Einar (1) sameiginlegar æfingabúðir erlendis í apríl/maí fyrir HM kandídata.  

10 íþróttamenn + yfirþjálfarar, fararstjórar, stoðteymi og persónulegir þjálfarar. 


2020 Hámörkun árangurs hvers og eins.  

Paralympics í Tokyo og EM ár. Stefnt að því að fara með fleiri keppendur en áður sem komast í úrslit. Stefnt að verðlaunasætum á PL og EM. 

Þrennar (3) sameiginlegar æfingabúðir innanlands.  

10 til 20 íþróttamenn auk yfirþjálfara, fararstjóra, stoðteymis og persónulegra 
þjálfara. 

Einar (1)  sameiginlegar æfingabúðir erlendis í apríl/maí (Tokyo og EM kandídatar). 

6 til 8 íþróttamenn + 5 fagteymi og þjálfarar sem líklegir eru til að taka þátt í Tokyo 2020. 

 
Reynslan af fyrsta árinu 


Þegar hafa verið haldnar fernar æfingabúðir á árinu 2017. Á milli 25 og 35 íþróttamenn mættu á æfingabúðirnar. Þau koma úr sundi, frjálsum íþróttum, hjólreiðum, bogfimi, boccia og skíðum. Áhersluatriðin fyrsta árið sneru fyrst og fremst að því að kenna íþróttamönnunum hvað það er að vera afreksmaður. Auk þess að vera með sérhæfðar æfingar fyrir hverja íþrótt sem stjórnað var af íþróttanefndunum var mikið lagt upp úr fræðslu. Einnig hafa verið gerðar markvissar mælingar á líkamsfari og hreyfigetu allra íþróttamannanna í samstarfi við meistaranema í íþróttafræði í HR. 


Í fyrstu æfingabúðunum var áherslan á markmiðasetningu íþróttamanna og að kynna þeim stefnu ÍF. Næst var áherslan lögð á að taka ábyrgð á sjálfum sér og lífi sínu. Erlendur Egilsson, sálfræðingur, sá um þennan þátt. Því næst var fjallað um sálfræði og einbeitingu en það er þáttur sem unnið verður með áfram.  


Agnes Þóra Árnadóttir, næringarfræðingur, og Lilja Guðmundsdóttir, meistaranemi, fjölluðu um mikilvægi næringar og létu íþróttafólkið vinna verkefni tengt mataræði í daglegu lífi. Þær fóru gaumgæfilega yfir hvaða næringu og orku hægt væri að fá úr mismunandi fæðu og hvernig íþróttafólk ætti að velja sér það sem því hentar dags daglega. 


Einnig þurftu allir að halda og skila inn æfingadagbók, sem reglulega var farið yfir, og íþróttamönnunum bent á hvað mætti betur fara í þjálfun þeirra. Margir þurfa að leggja mun harðar að sér í æfingum til að ná að halda í við kröfur á afreksstigi þjálfunar ef þau ætla að komast í flokk þeirra bestu. 


Almennar mælingar á líkamsfari og afkasta- og hreyfigetu voru framkvæmdar. Mælingunum verður fylgt eftir af meistaranemum HR, þeim Kolbrúnu Sjöfn Jónsdóttur og Sigrúnu Bjarglind Ingólfsdóttur. Gerðar voru ýmsar sérhæfðar mælingar, svo sem í boccia, frjálsum og sundi, sem þjálfarar og íþróttamenn geta nýtt sér til að stilla æfingaplanið sitt eftir.

Næsta ár heldur hópurinn áfram að hittast hér heima en einnig erlendis þar sem þau sem lengst eru komin og náð hafa EM lágmörkum æfa saman í viku til tíu daga. Yfirmenn landsliðsmála vilja þakka íþróttanefndum ÍF, fagteyminu og starfsmönnum ÍF fyrir samstarfið þetta fyrsta ár á leið til Tokýó. 


Ingi og Kári