Þrjú á ferðinni í dag: Róbert fjórði í 200m skriðsundi


Hafnfirðingurinn Róbert Ísak Jónsson var eini íslenski keppandinn á HM í Mexíkó sem stakk sér til sunds í gær þegar hann tók þátt í 200m skriðsundi S14.


Róbert hafnaði í 4. sæti á tímanum 2:06.02 mín en Suður-Kóreumaðurinn Cho Wonsang sem varð að láta í minni pokann gegn Róberti í 200m fjórsundinu vann gullið í greininni á 2:00.66 mín.


Í dag og í kvöld verða Róbert, Már Gunnarsson og Sonja Sigurðardóttir öll í eldlínunni. Róbert Ísak keppir í undanrásum í 100m baksundi í dag og Már Gunnarsson verður í undanrásum í 200m fjórsundi og Sonja tekur þátt í beinum úrslitum í 50m skriðsundi.