Andrew Parsons kjörinn forseti Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC)


Átjánda Aðalfundi Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra er nýlokið en fundurinn fór fram í Abu Dahbi. Bar þar helst til tíðinda að Brasilíumaðurinn Andrew Parsons var kjörinn forseti hreyfingarinnar. Parsons tekur við af Sir Philip Craven sem gegnt hefur formannsembættinu síðustu tvo áratugi og stýrt IPC styrkri hendi til núverandi vegs og virðingar.


Parsons er fyrrum forseti National Paralympic Committe í Brasilíu en hann hafði betur í formannsslagnum gegn Kanadamanninum Patrick Jarvis, Dananum John Petersson og Kínverjanum Haidi Zhang.


Nýsjálendingurinn Duane Kale var kjörinn varaformaður IPC en hann er þrefaldur gullverðlaunhafi í sundi frá Paralympics 1996 í Atlanta. Hafði hann betur í embætti varaformanns með tveimur atkvæðum en þar var Daninn John Petersson einnig í framboði.


Parsons bíður mikill starfi enda hefur mótahald og sýnileiki íþrótta fatlaðra farið ört vaxandi á síðustu árum en betur má ef duga skal.


Mynd/ Andrew Parsons, nýr formaður Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra.