Fulltrúar Special Olympics á Íslandi fagna kjöri nýs varaformanns alþjóðalionshreyfingarinnar


Alþjóðalionshreyfingin hefur verið mikilvægur stuðningsaðili alþjóðasamtaka Special Olympics, ekki síst vegna verkefnisins Healthy Athletes.  Í dag föstudaginn 25. ágúst hittu fulltrúar Special Olympics á Íslandi, nýkjörinn varaforseta alþjóðalionshreyfingarinnar, Guðrúnu Björt Yngvadóttir. Hún mun á næsta ári verða kjörinn forseti alþjóðahreyfingar Lions og verið er að gera heimildarmynd um þennan öfluga og glæsilega fulltrúa Íslands á alþjóðavettvangi. . Lionshreyfingin á Íslandi hefur í áratugi verið einn mikilvægasti samstarfsaðil Íþróttasambands fatlaðra sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi. Auk fjárhagslegs stuðnings hefur Lionshreyfingin átt fulltrúa í stjórn ÍF og í stjórnum íþróttafélaga fatlaðra víða um land.  Hængsmótið á Akureyri, sem er íþróttaviðburður á landsvísu fyrir fatlað íþróttafólk er orðinn fastur liður í verkefnavali íþróttafólksins og fjölmörg mót aðildarfélaga ÍF eru haldin í samstarfi við lionisklúbba. Auk þess starfa fulltrúar Lionsklúbba á mótum ÍF og koma að starfi aðildarfélaga ÍF með aðstoð við mótahald og æfingar. Samstarfið hefur verið einstaklega mikilvægt og árangursríkt allt frá upphafi.

Special Olympics hreyfingin sem stofnuð var af Kennedy fjölskyldunni árið 1968 byggir á leikreglum í íþróttum þar sem allir eiga sömu möguleika á að vinna til verðlauna. Allir eru sigurvegarar.

Tveir iðkenda sem hittu Guðrúnu Björt í dag, þau Ólafur Ólafsson og Rakel Aradóttir hafa tekið þátt í alþjóðaleikum Special Olympics. Á Special Olympics leikunum 2015 Los Angeles ríkti mikil gleði þegar Rakel hlaut sín fyrstu og einu gullverðlaun og að sjálfsögðu mætti hún á staðinn með þau um hálsinn. Rakel og Glódís æfa sund og Arna Dís æfir nútímafimleika. Ólafur æfir boccia en hefur æft fótbolta og fleiri greinar. Það var mikið fjör þegar hópurinn hitti Guðrúnu Björt í dag eins og sjá má af myndunum en það var rauði Special Olympics Unifed boltinn sem var í lykilhlutverki.

 

Á hópmyndinni eru f.v.

Rakel Aradóttir, Ólafur Ólafsson, Arna Dís Ólafsdóttir, Ólafur Ólafsson, formaður Aspar og fulltrúi í  SO nefnd, Guðrún  Björt Yngvadóttir, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir,frkvstj. SO á Íslandi,  Glódís Ólafsdóttir, Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og SO á Íslandi