Komið að stóru stundinni!


Heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum stendur nú sem hæst á Ólympíuleikvanginum í London. Í kvöld er komið að stóru stundinni þegar Ármenningurinn Helgi Sveinsson mætir til spjótkastkeppninnar í flokki F42-44. Helgi keppir í þremur sameinuðum flokkum aflimaðra og þeirra með visinn fót. Gríðarlega spennandi keppni varð í þessum flokki á Paralympics í Río de Janeiro í Brasilíu á síðasta ári þar sem Helgi varð að fella sig við fimmta sætið þrátt fyrir að hafa sett nýtt Paralympics-met.


Fyrr í sumar setti Helgi nýtt og glæsilegt heimsmet í flokki F42 þegar hann kastaði spjótinu 59,77 metra á Grand Prix mótaröð IPC sem fram fór á Ítalíu. Helgi taldi að sigurkast kvöldsins væri á 60 metrum svo það eina sem stæði til boða þessa stundina væri að mæta til leiks með sitt allra besta.


Keppnin hjá Helga hefst kl. 19.03 að staðartíma eða 18.03 að íslenskum tíma en Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) sýnir í beinni frá mótinu hér.