Eik með yfirburðasigur á Selfossi


Íslandsmót ÍF utanhúss í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossi um helgina en mótið var haldið samhliða meistaramóti Frjálsíþróttasambands Íslands. Íþróttafélagið Eik frá Akureyri hafði öruggan sigur í stigakeppninni þar sem Kristófer Fannar Sigmarsson vann til sjö gullverðlauna, eitt silfur og eitt brons!


Árangur var góður í mörgum greinum. Helgi Sveinsson sýndi öryggi í spjótkastinu með 55,98m sem hefði dugað í fjórða sæti ófatlaðra. Hann notaði bara eitt kast og verður til alls líklegur í London í næstu viku.


Jón Margeir Sverrisson setti Íslandsmet í 200m hlaupi og 1500m og sigraði einnig í 800m. Metið í 200m hlaupi var 25,76 sek. og nýja metið í 1500m hlaupi var 4:51,64 mín.   


Hulda Sigurjónsdóttir bætti met sitt í sleggjukasti er hún kastaði 24,14 metra og var með ársbesta árangur í kúlu. Michel Thor Masselter bætti met sitt í CP flokknum í 1500m hlaupi.


Stefanía Daney Guðmundsdóttir vann allar sínar 5 greinar og er í góðu formi. Hún var nálægt sínum besta árangri í langstökki 4,68m sem er yfir lágmarki á EM, enn einnig í 400m. Patrekur Andrés Axelsson og aðstoðarmaður hans Andri Snær Ólafsson Lukeš sýndu mikið öryggi í 100m og 200m T11, að auki keppti Patrekur í langstökki.


Öll úrslit mótsins