Heilsuleikskólinn Garðasel Akranesi tekur þátt í YAP verkefninu


Innleiðing YAP verkefnisins heldur áfram en fyrsti leikskólinn á Vesturlandi til að fá kynningu á YAP var Heilsuleikskólinn Garðasel, Akranesi. Þar hefur í áratugi verið unnið mjög markvisst starf á sviði hreyfifærni og stefnt er að því að leikskólinn hafi lokið 5 þrepa áætlun vegna YAP Certification í haust.. 

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi hefur unnið markvisst með hreyfingu sem einn lykilþátt starfsins í fjölda ára. Leikskólinn hefur tvisvar sinnum verið valin stofnun ársins í könnun VR, St. RV og STFR sem er mikil viðurkenning á innra starfi skólans. Þriðjudaginn 21. júní var haldin YAP kynning fyrir starfsfólk leikskólans en leitað var til ÍF og Special Olympics á Íslandi með að fá kynningu á YAP verkefninu.  Anna K Vilhjálmsdóttir sem hefur haft umsjón með innleiðingu YAP á Íslandi, heimsótti heilsuleikskólann í gær og kynnti verkefnið.Það sem hefur verið einkennandi í innleiðingarferlinu er að YAP verkefnið er talið vera gagnlegt og áhugavert og geta nýst öllum, líka þeim sem eru með þróað hreyfifærnistarf. Markmið YAP verkefnisins er að virkja þann hóp sem þarf hvata til meiri hreyfiþjálfunar og skapa tækifæri til að því sé fylgt eftir innan leikskólans. Samstarf við heimilin skiptir miklu mál varðandi árangur og vonast er til þess að slíkt samstarf verði einn af þáttum YAP innleiðingarinnar í framtíðinni. Það er ekki síður markmið að YAP hafi áhrif á og stuðli að aukinni þátttöku barna í íþróttastarfi, þegar komið er í grunnskóla.Börn með skerta hreyfifærni og/eða sérþarfir þurfa að fá tækifæri til að taka þátt eins og önnur börn í almennu íþróttastarfi þar sem hreyfiþjálfun er gífurlega mikilvæg,ekki síst fyrir þennan hóp. Rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun skilar góðum árangri en áhrif til framtíðar eru þó mikilvægust og það sem skiptir mestu máli þegar lagt verður mat á innleiðingu YAP verkefnisins síðar í ferlinu.