Áratugur af bikarsigrum Fjarðar!


Bikarmót Íþróttasambands fatlaðra í sundi fór fram í Kópavogslaug í dag þar sem Íþróttafélagið Fjörður frá Hafnarfirði vann bikarinn tíunda árið í röð! Magnað afrek hjá Hafnfirðingum. Um var að ræða gríðarlega spennandi keppni þar sem aðeins 137 stig skildu að Fjörð og silfurlið ÍFR.


Nes hafnaði í 3. sæti með 5121 stig og þá var Ösp í fjórða sæti með 2302 stig. Tvö Íslandsmet féllu á mótinu en það fyrra setti Már Gunnarsson frá Nes í 200m skriðsundi í flokki S12 er hann kom í bakkann á 2:20,74 mín. Hjörtur Már Ingvarsson frá Firði átti hitt Íslandsmetið í dag er hann synti 50m baksund á 47,55 sek. í flokki S6.


Lokastaða mótsins
Íþróttafélagið Fjörður - 12094 stig
ÍFR - 11957 stig
Nes - 5121 stig
Ösp - 2302 stig


Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri þakklæti til Kópavogsbæjar, starfsfólks við mótið og allra þeirra sem gerðu keppnina jafn vel heppnaða og spennandi. Kærar þakkir.


Mynd/ Sigurlið Fjarðar í Kópavogslaug í dag en þær Elsa Sigvaldadóttir og Sandra Lind Valgeirsdóttir tóku við Blue Lagoon bikarnum fyrir Fjörð úr hendi Þórðar Árna Hjaltested formanns ÍF.