Íþróttaskóli YAP á Akureyri


Miðvikudaginn 3. maí 2017 var haldinn kynningardagur Young Athlete Project, YAP, á Akureyri.
 

YAP er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics og markmiðið er að stuðla að því að öll börn fái nauðsynlega hreyfiþjálfun. Ókeypis aðgengi er að fræðsluefni og og byggt er á einföldum æfingum sem hægt er að nota við mismunandi aðstæður.


Háskólinn í Boston þróaði einfalt mælitæki sem hægt er að nota þegar verið er að meta hvaða börn fá auka hreyfitíma. Innleiðing YAP á sér stað víða um heim hjá aðildarlöndum SOI. Flestir bjóða upp á tíma þar sem börn mæta með foreldrum sínum, svo sem íþróttaskóli og aðildarfélög ÍF hafa verið hvött til að setja slíkar æfingar á fót og nokkur félög bjóða upp á æfingar fyrir ung börn.


Á Íslandi var ákveðið að hefja jafnframt samstarf við leikskóla og hafa viðtökur verið einstaklega góðar. Megináhersla er lögð á að skapa aðstæður þar sem börn sem þurfa á meiri þjálfun að halda fái auka hreyfitíma í því formi sem talið er henta á hverjum stað. Rannsóknir hafa sýnt að snemmtæk íhlutun getur haft jákvæð áhrif og því brýnt að bregðast við eins fljótt og hægt er, sé þörf á meiri hreyfiþjálfun. Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til hreyfiþjálfunar þegar komið er á grunnskólaaldur og þetta verkefni er talið geta haft jákvæð áhrif varðandi framtíðarþátttöku barna í íþróttastarfi. 

 

Sérkennslustjórar, umsjónarmenn hreyfistunda og almennir leikskólakennarar mættu á kynninguna sem fór fram í íþróttahúsi Síðuskóla. Börn frá heilsuleikskólanum Krógabóli tóku þátt í þrautabraut og nutu aðstoðar þátttakenda. Eftir hádegi var haldinn fundur þar sem farið var yfir helstu atriði og rætt framtíðarskipulag. 

ÍF og Special Olympics á Íslandi þakka Elvu Haraldsdóttur sérkennslustjóra leikskóla hjá Akyreyrarbæ og starfsfólki leikskólans Krógabóls fyrir gott samstarf og góðar móttökur. 

Umsjón með kynningardeginum höfðu Anna K. Vilhjálmsdóttir frá ÍF og Ásta Katrín Helgadóttir frá Heilsuleikskólanum Háaleiti.