Íslandsmótinu lokið


Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í borðtennis, boccia og lyftingum lauk í dag. Einnig var keppt í fyrsta sinn í Nútímafimleikum og áhaldafimleikum á Íslandsmótinu.


Hulda Sigurjónsdóttir frá Suðra fór mikinn í lyftingakeppninni þar sem hún setti þrjú ný Íslandsmet og varð því Íslandsmeistari í samanlögðu. Þá varð Vignir Unnsteinsson, ÍFR, Íslandsmeistari í karlaflokki en bæði Hulda og Vignir keppa í flokki þroskahamlaðra. Einn keppandi tók þátt í öllum þremur lyftunum í flokki hreyfihamlaðra en það var Sigurjón Ægir Ólafsson sem hlaut gullverðlaun fyrir árangur sinn og þá varð Egill Rafnsson Íslandsmeistari í bekkpressu hreyfihamlaðra.


Keppni í borðtennis fór fram í TBR húsinu þar sem Kolfinna Bjarnadóttir varð Ísladnsmeistari í opnum flokki og kvennaflokki. Jón Þorgeir og Hilmar Björn höfðu sigur í tvíliðaleik og Guðmundur Hafsteinsson varð sigurvegari í flokki þroskahamlaðra karla. Hákon Atli Bjarkason hafði svo sigur í flokki hreyfihamlaðra karla.


Í boccia varð Nes Íslandsmeistari í 1. deild en sveitina skipuðu Konráð Ragnarsson, Arnar Már Ingibergsson og Ragnar Lárus Ólafsson. Ösp A sigraði í rennuflokki með þau Kristján Vigni Hjálmarsson og Þórey Rut Jóhannesdóttur innanborðs. ÍFR-A varð svo Íslandsmeistari í BC 1-4 flokknum með þá Inga Björn Þorsteinsson og Hilmar Kolbeinsson innanborðs.


Þá verður lokahóf Íslandsmótsins í kvöld í Gullhömrum í Grafarvogi og verður vísast mikið um dýrðir eins og jafnan þegar lokahófið fer fram.


Nánar verður greint frá Íslandsmótunum á morgun, mánudag sem og úrslitum úr fimleikakeppninni. Þá verður Íslandsmót ÍF í sundi í 50m laug næstu helgi eða dagana 8.-9. næstkomandi.


Mynd/ Jón Björn - Íslandsmeistararnir Hulda og Vignir í íþróttahúsi ÍFR í dag.