Forsetastjarna ÍF afhent í þriðja sinn


Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra afhenti í gær Hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands forsetastjörnu Íþróttasambands fatlaðra. Afhendingin fór fram að Bessastöðum í blíðskaparviðri og við tækifærið þakkaði forsetinn kærlega fyrir sig og minntist þess að hans fyrsta embættisverk erlendis var heimsókn hans á Paralympics í Ríó de Janeiro 2016 þar sem hann studdi íslenska keppnishópinn með ráðum og dáð.


Í reglugerð Íþróttasambands fatlaðra um heiðursmerki segir:

3. gr.
Forsetastjarna ÍF er veitt forseta Íslands eftir forsetakjör við fyrsta hentugleika í samráði við hann.


Þetta er í þriðja sinn sem forsetastjarna ÍF er afhent frá stofnun sambandsins árið 1979 en eins og gefur að skilja höfðu þá frú Vigdís Finnbogadóttir og hr. Ólafur Ragnar Grímsson þegar veitt forsetastjörnunni viðtöku í sinni forsetatíð.


Mynd/ Jón Björn - Frá afhendingu Forsetastjörnu ÍF að Bessastöðum þann 2. mars 2017.