Þær stukku út í djúpu laugina, ævintýraferð til Winter Park


Ferð til NSCD Winter Park, ævintýra og útivistarferð fyrir ungar hreyfihamlaðar konur

 Þann 24. janúar 2017  héldu þær Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir, Björk Sigurðardóttir og móðir hennar, Erla Bragadóttir til Winter Park í Colorado.  Þar tóku þær þátt í fjölbreyttri dagskrá sem skipulögð var af samstarfsaðilum ÍF hjá NSCD Winter Park. Markmið er að hefja samstarf sem byggir á útivistartækifærum fyrir ungt fólk með hreyfihömlun. Þær stöllur komu á kynningarfund hjá ÍF í haust og ákváðu að stökkva strax út í djúpu laugina, hvorug hefur farið á skíði áður. Skíðakennslan gekk mjög vel en jafnframt var farið í  hundasleðaferðir, hestaferðir og  ýmis önnur útivistartilboð prófuð.   Auk þess að upplifa og öðlast nýja reynslu verður þessi ferð gott innlegg í kynningarstarfið þannig að hægt verði að ná betur til ungs fólks með hreyfihömlun m.a. þeirra sem hafa lamast eða hlotið fötlun í kjölfar slysa. Verkefnið var kynnt fyrir ungar konur með hreyfihömlun en  erfitt hefur reynst að virkja þennan hóp í íþróttastarfi ÍF. Vonandi verður í framhaldinu hægt að virkja fleiri til þátttöku í íþrótta og útivistarstarfi og í gegnum samstarf ÍF og NSCD skapa tækifæri fyrir jafnt konur sem karla.  Þann 2. febrúar komu þær heim frá Winter Park og það verður spennandi að heyra ferðasöguna, vonandi verða fleiri með næst!