Sochi: 7 dagar til stefnu



Eftir akkúrat eina viku fer setningarhátíð Vetrarólympíumóts fatlaðra í Sochi fram. Föstudaginn 7. mars munu íslensku keppendurnir, Erna Friðriksdóttir og Jóhann Þór Hólmgrímsson, ásamt þjálfurum sínum ganga inn á Ólympíuleikvanginn.

Íslenski hópurinn sem búa mun í Mountain Village Ólympíumótsþorpinu er eftirfarandi:

Erna Friðriksdóttir - keppandi
Jóhann Þór Hólmgrímsson - keppandi
Kurt Stephen Smitz - aðalþjálfari/hópstjóri
Starlene Kuhns - þjálfari
Hörður Finnbogason - aðstoðarþjálfari
Lilja Sólrún Guðmundsdóttir - aðstoðarþjálfari
Jón Björn Ólafsson - aðalfararstjóri

Ísland á í góðri samvinnu við önnur íþróttasambönd fatlaðra á Norðurlöndunum og í Sochi starfa Norðurlöndin saman undir vinnuheitinu „Five Nations One Team.“ Að ýmsu er að huga á svona stórmótum og hafa Norðurlöndin um áratugaskeið verið dugleg að snúa bökum saman, liðsinna hvert öðru og veita stuðning. Alls verða níu íþróttamenn frá Norðurlöndunum sem búa munu í Mountain Village og keppa þeir allir í Alpagreinum, fimm karlmenn og fjórar konur. Norðurlöndin eru þó víðar í Sochi heldur en bara í Mountain Village en af Norðurlöndunum eru það Svíar sem ríða á vaðið í Sochi þegar þeir mæta Kanadamönnum í Sleða-hokký kl. 13:00 að staðartíma eða kl. 09:00 að íslenskum tíma þann 8. mars.

Mynd/ Í fyrsta sinn á Vetrarólympíumóti fatlaðra verður keppt á snjóbrettum og af Norðurlöndunum eru það bara Finnar sem tefla fram manni í þeirri keppni en kappinn sá heitir Matti Suur-Hamri.