
Matthildur á besta tímann 33,76 sek. en þeim tíma náði hún fyrr á þessu ári á alþjóðlegu móti í Túnis. Reyndar hljóp hún á betri tíma á EM í Hollandi en sá árangur fékkst ekki gildur þar sem um of mikinn vind í því hlaupi var að ræða.
Nú þegar sjöundi keppnisdagur er að hefjast hér í London er ekki úr vegi að kíkja eldsnöggt á þær þjóðir sem hafa verið hvað atkvæðamestar. Kínverjar hafa unnið til 132 verðlauna og þar af eru 53 gull! Í öðru sæti eru heimamenn frá Bretlandi með 79 verðlaun og 23 gullverðlaun. Rússar eru í 3. sæti með 62 verðlaun og 23 gullverðlaun rétt eins og heimamenn í Bretlandi. Hér má sjá heildarlista verðlaunahafa en til gamans má geta að sé litið til höfðatölukeppninnar góðu þá hefur Ísland unnið flest gullverðlaun á mótinu miðað við fjölda íbúa.
Mynd/ Matthildur Ylfa verður vafalítið vopnuð sínu fræga brosi á eftir þegar hún reynir fyrir sér í 200m hlaupi frammi fyrir 80.000 manns á Ólympíumótsleikvanginum.