Katrín Guðrún Tryggvadóttir hafnaði í 5. sæti í gær á Vetrarleikum
Special Olympics þar sem hún tók þátt í listdansi á skautum. Að sögn Helgu Olsen
þjálfara Katrínar stóð skautakonan sig mjög vel og fékk mikil og góð viðbrögð
frá áhorfendum. Að loknum bæði skylduæfingum og frjálsum æfingum hafnaði Katrín
eins og fyrr greinir í 5. sæti. Frábær árangur hjá þessari efnilegu skautakonu
sem var eini fulltrúi Íslands á mótinu og vakti það töluverða athygli.
,,Þess má geta að CNBC var að sjálf sögðu mætt á svæðið
og tóku myndir af undirbúningnum, frjálsa prógraminu, viðbrögðum foreldra og svo
að sjálf sögðu var tekið heilmikið viðtal við bæði Katrínu og Helgu þjálfara.
Þegar CNBC hafði lokið sér af kom enn önnur beiðni um viðtal. Sjónvarpslið
Special Olympics ákváðu að gera heimildarmynd um eina íþróttamann Íslands á
þessum leikum. Þannig að þegar við vorum rétt búin að kveðja fréttamenn CNBC tók
annað lið við. Tekin voru viðtöl við alla í liðinu ásamt foreldrum Katrínar.
Þegar því var svo lokið fylgdi ljósmyndari frá Special Olympics okkur. Hann
myndaði okkur við nánast öll tækifæri. Katrín hafði orð á því að nú vissi hún
hvernig stjörnunum í Hollywood liðið þegar þær gætu ekki borðað hádegismat án
þess að teknar væru af því myndir. Hún hefur tekið þá ákvörðun um að feta ekki
þann veg þar sem henni
fannst athyglin aðeins of yfirþyrmandi,“ sagði Helga þjálfari Katrínar og
ljóst að hópurinn hefur skemmt sér konunglega í Idaho í Bandaríkjunum.
Heimildarmyndin verður svo sett inn á netið undir: http://live.specialolympics.org