Spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson hefur lokið keppni á Evrópumeistaramóti fatlaðra í frjálsum. Þessi frumraun Patreks á EM fékk snarpan endi þegar leiðsöguhlaupari hans Andri Snær Ólafsson meiddist miðja vegu í hlaupinu í undanrásum í 100m T11 keppninni. Patrekur átti að keppa í dag, föstudag, í 200m hlaupi en var dreginn úr keppni í gærdag.
Í flokki Patreks T11 (alblindir) er það skylda hlaupara að keppa með leiðsöguhlaupara. Án leiðsöguhlaupara fá íþróttamenn ekki að keppa í spretthlaupi T11 skv. reglum Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra.
Um leið og ljóst varð um meiðsli Andra Snæs Ólafssonar fór hópstjórn íslenska hópsins á fullt í að kanna möguleikann á öðrum leiðsöguhlaupara til að framkvæma hlaup dagsins með Patreki. Reglum samkvæmt er ekki heimilt að nota leiðsöguhlaupara frá öðrum löndum, sá hinn sami yrði að vera íslenskur. Fleiri flækjur skautu upp kollinum við vinnslu málsins en eina mögulega niðurstaðan að svo stöddu var úrskráning úr 200m hlaupi og því miður ferð án úrslita hjá Patreki á sitt fyrsta Evrópumeistaramót.
Patrekur hefur tekið þessari niðurstöðu faglega þrátt fyrir þessi gríðarlegu vonbrigði en hann hefur lagt allt sitt í sölurnar undangengna mánuði við að ná sem bestum úrslitum á EM.
Samstarf spretthlaupara og leiðsöguhlaupara í flokki blindra er afar náið og er einkar mikil samhæfing sem fer þar fram svo það er því miður ekki hægt að setja hvern sem er í þetta krefjandi hlutverk. Patrekur er frumkvöðull í íþróttum fatlaðra á Íslandi sem fyrsti alblindi spretthlaupari þjóðarinnar. Sem slíkur er hann að feta ótroðnar slóðir og á þeirri vegferð geta verið ljón í veginum en Íþróttasamband fatlaðra í samvinnu við íþróttamanninn og þá fjölmörgu sem standa þétt við bak hans munu vinna öttulega við að ryðja þeim úr veginum.
Mynd/ Jón Björn