Bergrún með brons á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti!


Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, ÍR, vann í dag til bronsverðlauna á Evrópumeistaramóti fatlaðra í frjálsum íþróttum þegar hún hafnaði í 3. sæti í 100m hlaupi T37 (hreyfihamlaðir). Stórglæsilegur árangur hjá þessari ungu og efnilegu íþróttakonu sem er stödd á sínu fyrsta stórmóti á ferlinum.


Lokatími Bergrúnar í greininni var einnig nýtt Íslandsmet en hún kom í mark á 14.73 sek. Hin franska Mandy Francois-Elie varð Evrópumeistari á 13.29 sek. og silfrið hreppti hin úkraínska Nataliia Kobzar á 13.67 sek.


Þá komst Jón Margeir Sverrisson í úrslit í 800m hlaupi karla T20 (þroskahamlaðir) með tímann 2:20.79 mín. Bretinn Steve Morris átti besta tímann í undanrásum en hann hljóp þá á 2:00.21. mín. en úrslit í þessari grein fara fram á morgun.
 

Myndband frá verðlaunaafhendingunni:


Ljósmynd/ Sverrir Gíslason - Bergrún með stöllum sínum frá Frakklandi og Úkraínu á verðlaunapalli í Berlín í kvöld.