Sex íslenskir keppendur á HM þetta árið


Þetta árið eru það heimsmeistaramótin sem eru hvað fyrirferðamest í afreksstarfi ÍF. Heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum er núna 14.-23. júlí í London en heimsmeistaramót fatlaðra í sundi fer fram í Mexíkóborg 29. september-7. október. Þá fer heimsmeistaramótið í bogfimi fram í Peking í Kína 12.-17. september.


Frjálsíþróttamaðurinn Helgi Sveinsson úr Ármanni ríður á vaðið núna í júlímánuði en hann verður eini fulltrúi Íslands á HM í frjálsum íþróttum. Mótið er í London á sama leikvangi og var notaður fyrir Ólympíuleikana og Paralympics árið 2012 svo Helgi ætti að vera staðháttum kunnur. HM í frjálsum er dagana 14.-23. júlí og von á gríðarlega spennandi keppni í spjótinu hjá Helga sem keppir í flokki F42-44. 

Bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson frá Boganum í Kópavogi verður eini íslenski þátttakandinn á heimsmeistaramótinu í bogfimi fatlaðra í september. Mótið fer fram í Kína en þetta verður stærsta mót Þorsteins síðan hann tók þátt í Paralympics í Ríó de Janeiro í Brasilíu á síðasta ári. Þá varð hann fyrstur Íslendinga til að vinna sér inn þátttökurétt í bogfimi á Paralympics og hefur síðustu misseri verið að þoka sér ofar á heimslistanum. 

Alls sendir Ísland svo fjóra keppendur á heimsmeistaramótið í sundi sem fram fer í Mexíkóborg dagana 29. september – 7. október. ÍFR-sundkonurnar Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir verða mættar aftur í baráttuna en þær kepptu einnig á Paralympics í Brasilíu á síðasta ári. Þá verður sundmaðurinn Már Gunnarsson frá Nes/ÍRB einnig á mótinu sem og Fjarðarmaðurinn Róbert Ísak Jónsson. 

Það er því stórt sumar og haust í vændum þar sem okkar fremsta fólk mætir þeim bestu á heimsmeistaramótunum.  

Myndir/ Á efri myndinni er spjótkastarinn Helgi Sveinsson en á þeirri neðri eru félagarnir Ingi Þór Einarsson annar tveggja yfirmanna landsliðsmála og sundmaðurinn Már Gunnarsson frá Nes/ÍRB.