Íþróttafélagið Suðri 30 ára


30 ára afmælishóf íþróttafélagsins Suðra var haldið 1. október í Þingborg. 

30 ára afmælishóf íþróttafélagsins Suðra var haldið 1. október í Þingborg.  Veisluföng voru glæsileg og fjölbreytt dagskrá var í boði, þar sem auk ræðuhalda var  sungið og  dansað af mikilli innlifun. Magnað lið frá Suðra stóð að undirbúningi dagskrár og þar lögðu systurnar þrjár, Hulda, María og Sigríður að sjálfsögðu hönd á plóg.   Það sem einkennt hefur liðsmenn Suðra er mikil samkennd og gleði og hið öfluga starf sem þar fer fram hefur haft mikla samfélagslega þýðingu.  Félagið hlaut fjölmargar gjafir og kveðjur m.a. frá forsvarsfólki sveitarfélaga á svæðinu en starf Suðra nær yfir nokkur sveitarfélög.

Matthildur Guðmundsdóttir stjórnarmaður ÍF afhenti gjafabréf frá IF  sem er tilvísun á bocciasett en iðkendum í boccia hefur fjölgað mikið hjá félaginu.  Formaður Suðra, Þórdís Bjarnadóttir afhenti sjálfboðaliðaskírteini ÍF til Páls Jónssonar og Þórunnar Guðnadóttur sem æfa boccia með félaginu en hafa einnig sýnt mikinn áhuga á að aðstoða á allan hátt.  Í hófinu voru auk núverandi formanns 3 fyrrverandi formenn, þau Svanur Ingvarsson, Sigríður Sæland og Þorbjörg Vilhjálmsdóttir.  Fulltrúar ÍF á samkomunni voru Matthildur Guðmundsdóttir og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir.  Samstarf ÍF og  Suðra hefur frá upphafi verið einstaklega ánægjulegt og farsælt.  Til hamingju með 30 ára farsælt starf stjórn og félagsmenn Suðra.