EM í sundi 30. apríl - 7. maí



Dagana 30. apríl til 7. maí n.k. fer Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi fram á eyjunni Madeira sem tilheyrir Portúgal. Áætlað er að um 450 keppendur frá 50 löndum taki þátt í mótinu sem er eitt stærsta sundmót fatlaðra fyrir Paralympics/Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í Ríó í Brasilíu í septembermánuði n.k. Á mótinu keppa allir bestu sundmenn Evrópu og mótið því gríðarlega sterkt og þar keppa menn ekki aðeins að því að vinna til verðlauna heldur líka að því að ná tilskyldum lágmörkum fyrir Ríó 2016.
 
Á EM í Portúgal taka þátt fyrir Íslands hönd þeir einstaklingar sem hafa nú þegar náð lágmörkum fyrir Paralympics í Ríó en þeir eru Jón Margeir Sverrisson, Fjölni, Sonja Sigurðardóttir, ÍFR og Thelma Björg Björnsdóttir ÍFR. Þá mun Már Gunnarsson, Íþróttafélaginu Nes verða meðal þátttakenda og gengst þar undir alþjóðlega flokkun.

Enn er möguleiki til að ná lágmörkum vegna Ríó og þar með að öðlast þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu þar eð Íslandsmót ÍF, sem fram fer í Reykjanesbæ 11. – 13. mars n.k., er með IPC leyfi og þeir tímar sem þar nást því löglegir lágmarkatímar fyrir EM.
 
Um miðjan febrúar n.k. mun sundnefnd IPC – Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra kynna þjóðum þann „kvóta“ sem þeim hefur verið úthlutað en alls munu 620 sundmenn keppa í Ríó, 280 konur og 340 karlar. Til upplýsinga þá ávinna þjóðir sér „kvóta“ út frá árangri sundmanna sinna þar sem verðlaun á stórmótum og staða á heimslista skiptir mestu máli. Það er því ljóst að mun fleiri sundmenn munu ná tilskyldum lágmörkum en „kvóti“ landanna segir til um.

Lágmörk í sundi vegna Paralympics í Río de Janeiro (bls 90 í pdf skjali)

Heimasíða EM í sundi