Jóhann Þór á pall í fyrsta sinn!



Skíðamaðurinn Jóhann Þór Hólmgrímsson frá Akri á Akureyri komst um helgina í fyrsta sinn á verðlaunapall í alpagreinum en Jóhann er nú staddur í Bandaríkjunum við æfingar og keppni.

Jóhann sem keppti í Huntsman Cup í Park City í Utah hafnaði í 3. sæti í svigi en þar keppti hann í bæði svigi og stórsvigi á mónóskíði. Þegar heimasíða ÍF náði stuttu tali af Jóhanni kvaðst kappinn í skýjunum með árangurinn og í færslu hans á Facbook segir hann einnig: „Geggjuð tilfinning að ná í fyrsta verðlaunapeninginn af mörgum í framtíðinni! Ég var enn að reyna átta mig á því hvað hafði gerst þegar ég tók á móti medalíunni!“

Jóhann stefnir ótrauður á Winter Paralympics í Suður-Kóreu 2018 en hans fyrsta stóra eldskírn var á Winter Paralympics í Sochi í Rússlandi 2014. Jóhann hefur ekki látið deigan síga síðan og er að uppskera vel þessi dægrin undir styrkri stjórn Kurt Smitz sem starfað hefur með Jóhanni frá árinu 2014.

Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Jóhanns er bent á Facebook-síðu kappans og þá heldur hann einnig úti síðunni http://www.johannthor.com/

Mynd/ Jóhann Þór lengst til hægri.