Helgi á fimmta lengsta heimsmetið


Eins og áður hefur komið fram setti Helgi Sveinsson nýtt og glæsilegt heimsmet í flokki F42 í spjótkasti um liðna helgi þegar hann opnaði keppnistímabilið sitt í Rieti á Ítalíu.


Helgi kastaði þá spjótinu 59,77 metra sem er umtalsverð bæting á eldra heimsmetinu hans sem var 57,36 metrar. Með þessu kasti er heimsmetið hjá Helga það fimmta lengsta í sögunni en lengsta kast fatlaðra á Króatinn Branimir Budetic sem er 65,74 metrar en það kast kom í Grosseto á Ítalíu á síðasta ári. Budedtic keppir í flokki sjónskertra en tvö lengstu köst sögunnar eru í þeim flokkum. Helgi á þriðja lengsta heimsmet í sögunni í flokki hreyfihamlaðra.


Lengstu heimsmetin í spjótkasti:


65,74m - Flokkur f13 (sjónskertir) - Branimir Budetic, Króatía
64,38m - flokkur f12 (sjónskertir) - Pengkai Zhu, Kína
63,97m - flokkur F46 (hreyfihamlaðir, einhentir) - Devendra, Indland
59,82m - flokkur f44 (hreyfihamlaðir, aflimun neðan við hné) - Mingije Gao, Kína
59,77m - flokkur f42 (hreyfihamlaðir, aflimun á hné og ofar) - Helgi Sveinsson, Ísland


Myndir/ Ólafur Magnússon og Francesco Carboni. Á efri mynd: Helgi í spjótkastkeppninni í Ríeti á Ítalíu. Neðri mynd: Einar Vilhjálmsson og Helgi Sveinsson ásamt Þórði Árna Hjaltesteð formanni ÍF þegar Einar og Helgi komu til landsins með nýtt heimsmet í farteskinu.