Þórður Árni nýr formaður Íþróttasambands fatlaðra


Sveinn Áki hlaut æðsta heiðursmerki ÍF og varð heiðursfélagi sambandsins


Þórður Árni Hjaltested var í dag kjörinn nýr formaður Íþróttasambands fatlaðra á 18. Sambandsþingi ÍF sem fram fór á Radisson Blu Hóteli Sögu í Reykjavík. Við þingsetningu var Sveinn Áki sæmdur æðsta heiðursmerki ÍF sem er gullmerki á krossi, borið í borða í íslensku fánalitunum. Skal merkið veita íslenskum ríkisborgara, sem unnið hefur langvarandi og góð störf í þágu ÍF, íþróttahreyfingarinnar í heild, einstakra íþróttahéraða, íþróttagreina eða með öðrum hætti, sem stjórn sambandsins ákveður, en störf viðkomandi verða að hafa haft afgerandi áhrif á framgang íþrótta fatlaðra.


Fyrir þing lá fyrir að Sveinn Áki Lúðvíksson formaður, ásamt Guðlaugi Ágústssyni úr aðalstjórn og Evu Þórdísi Ebenezersdóttur úr varastjórn ÍF gæfa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.


Tillaga kjörnefndar um stjórn ÍF 2017 - 2019 var eftirfarandi:


Formaður:     Þórður Árni Hjaltested
Varaformaður:    Jóhann Arnarson
Aðrir í aðalstjórn:     Halldór Sævar Guðbergsson, Matthildur Kristjánsdóttir, Margrét Kristjánsdóttir.
Varastjórn:     Jón Heiðar Jónsson, K. Linda Kristinsdóttir, Þór Jónsson.


Var ný stjórn Íþróttasambands fatlaðra samþykkt einróma af þinggestum. Að því loknu var Sveinn Áki Lúðvíksson formlega gerður að heiðursfélaga Íþróttasambands fatlaðra og er hann því aðeins annar núlifandi heiðursfélagi sambandsins. Þar með var ekki öllu lokið þar sem Sveinn Áki verður 70 ára 26. apríl næstkomandi var hann leystur út með gjöfum frá stjórn og starfsfólki sambandsins.


Myndir/ Efri mynd: Þórður Árni Hjaltested er fjórði formaðurinn í sögu Íþróttasambands fatlaðra en áður voru það Sigurður Magnússon, Ólafur Jensson og Sveinn Áki Lúðvíksson sem gegndu embættinu. Á neðri myndinni myndinni frá vinstri er nýkjörin stjórn ÍF: Matthildur Kristjánsdóttir, Halldór Sævar Guðbergsson, Þórður Árni Hjaltested formaður, Jóhann Arnarson varaformaður, Þór Jónsson og Margrét Kristjánsdóttir. Fremri röð frá vinstri eru Jón Heiðar Jónsson og K. Linda Kristnsdóttir.