Heimsmeistaramót setja svip sinn á árið 2017


Árið í ár hjá afreksíþróttafólki úr röðum fatlaðra mun einkennast af heimsmeistaramótum. Árið 2017 fara fram heimsmeistaramót í frjálsum, sundi og bogfimi. Fjöldi íslenskra afreksmanna mun því framan af ári freista þess að tryggja sér lágmörk inn á þessi mót.  
 


Fjörið hefst í frjálsum þar sem heimsmeistaramótið fer fram í London dagana 14.-23. júlí. Keppt verður á Ólympíuleikvanginum frá 2012 í Queen Elisabeth Olympic Park. Frjálsíþróttamenn eins og Helgi Sveinsson, Hulda Sigurjónsdóttir, Patrekur Andrés Axelsson, Stefanía Daney Guðmundsdóttir munu gera harða atlögu að því að öðlast keppnisrétt á mótinu. Jafnvel fleiri gætu blandað sér í baráttuna og verður fróðlegt að sjá hvernig frjálsíþróttafólkinu muni ganga að eltast við keppnisréttinn bæði hér heima og erlendis.   

Þá verður september stór mánuður á árinu 2017 þar sem heimsmeistaramót í bæði bogfimi og sundi fara fram. Heimsmeistaramótið í bogfimi verður aðeins lengra frá fósturjörðinni því það fer fram í Peking í Kína dagana 12.-17. september. Bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson hefur þegar hafið sinn undirbúning bæði fyrir HM og Tokyo 2020 og er fullur eldmóðs eftir þátttöku sína á Paralympics í Ríó þar sem hann varð fyrstur Íslendinga til að keppa á Paralympics í bogfimi. 

Skömmu síðar eða 29.september-7.október fer heimsmeistaramótið í sundi fram í Mexíkóborg í Mexíkó. Umtalsvert ferðalag hjá bæði bogfimi- og sundfólkinu í vændum. Ísland átti þrjá sundmenn á Paralympics 2016 en þegar hefur Jón Margeir Sverrisson snúið sér að öðrum greinum og keppnisharka hans færist því væntanlega á annað svið. Sundkonurnar Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir munu án vafa berjast fyrir þátttöku ytra sem og fleiri sundmenn úr röðum fatlaðra sem hafa verið að láta vel fyrir sér finna síðustu misseri, nefnum þar t.d. Má Gunnarsson frá Nes/ÍBR í Reykjanesbæ. 

En herlegheitin hefjast núna strax í janúarmánuði þar sem Jóhann Þór Hólmgrímsson mun keppa á HM í skíðaíþróttum í Tarvisio á Ítalíu. Jóhann er skráður til keppni í svigi og stórsvigi en hafði ekki nægan stigafjölda til að komast inn í Super-G eða Super-Combined keppnina. Beiðni um þátttöku í þeim greinum hefur þegar verið send og skýrist það þegar nær dregur hvort Jóhann fái þátttökuheimild í þeim greinum. Jóhann er þegar farinn til Noregs og æfir nú af kappi fyrir HM á Ítalíu en ferðast á keppnisstað þann 17. janúar næstkomandi. Til stóð að Garðbæingurinn Hilmar Snær Örvarsson yrði einnig fulltrúi Íslands á Ítalíu en hann gat ekki tekið þátt í mótinu vegna meiðsla. Keppni á HM hefst miðvikudaginn 25. janúar. 

Mynd/ Jóhann Þór og þjálfari hans, Einar Bjarnason, í Hollandi á síðasta ári. Með þeim í för á Ítalíu verður skíðaþjálfarinn Þórður Georg Hjörleifsson.