ÍF og Íslandsbanki framlengja samstarf sitt


Íþróttasamband fatlaðra og Íslandsbanki framlengdu á dögunum samstarfs- og styrktarsamning sinn til tveggja ára eða með gildistúma út árið 2017.


Það voru Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Ólafur Ólafsson útibússtjóri Íslandsbanka við Höfðabakka sem innsigluðu nýja samninginn á dögunum.

Íslandsbanki hefur verið ötull stuðningsaðili Special Olympics á Íslandi en undir hatti Íþróttasambands fatlaðra eru iðkendur sem lifa með þroskahamlanir, hreyfihamlanir, heyrnarskerðingu eða sjónskerðingu. Íþróttasamband fatlaðra gerðist aðili að Special Olympics samtökunum árið 1989 og hefur síðan þá verið umsjónaraðili samtakanna á Íslandi.

Íþróttasamband fatlaðra þakkar Íslandsbanka kærlega fyrir samfylgdina á liðnum árum og verður spennandi að fá að halda áfram að vinna náið með bankanum í þeim fjölmörgu verkefnum sem er að finna á væng Special Olympics hérlendis.