Opið erindi um svefn, hvíld og afreksfólk í íþróttum


Laugardaginn 12. nóvember næstkomandi verður Íþróttasamband fatlaðra með opið erindi um svefn, hvíld og afreksfólk í íþróttum. Erlingur Jóhannsson prófessor við Háskóla Íslands flytur erindið.


Erindið er opið öllum aðildarfélögum Íþróttasambands fatlaðra og öðrum áhugasömum og hefst fyrirlesturinn kl. 13 í fundarsölum ÍSÍ á 3. hæð Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal.


Nánar um Erling af heimasíðu HÍ


Erlingur lauk dr. scient-gráðu í íþróttalífeðlisfræði frá Norska Íþróttaháskólanum í Osló árið 1995 en hluti af doktorsverkefni var unnin við háskólann í Waterloo í Kanada. Að loknu doktorsnámi var Erlingur í rannsóknarstöðu við læknadeild Oslóarháskóla og Ulleval háskólasjúkrahúsið. Erlingur var settur skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands 1. júní 1997 og forstöðumaður íþróttafræðaseturs á Laugarvatni frá 1. janúar 1998. Erlingur hefur stjórnað uppbyggingu á grunn- og meistaranámi í íþróttafræðum við Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni. Erlingur hefur birt fjölmargar vísindagreinar á sviði íþróttalífeðlisfræði, læknisfræði og heilsufræði í virtum íslenskum og erlendum vísindatímaritum. Erlingur hefur stjórnað nokkrum umfangsmiklum rannsóknarverkefnum og má í því sambandi nefna víðamikla rannsókn sem framkvæmd var skólaárið 2003-2004 "Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga - hreyfing, heilsufar, mataræði og félagslegir þættir". Erlingur er verkefnisstjóri í verkefninu "Lífsstíll 7 til 9 ára grunnskólabarna - íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu og betri lífsgæða.