Jón Margeir fjórði í 200m skriðsundi


Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson varð í kvöld fjórði í 200m skriðsundi S14 á Paralympics í Ríó de Janeiro. Jón kom í bakkann á tímanum 1.57.50 mín. en sigurvegari kvöldsins, Tang Wai Lok, sigraði á tímanum 1.56.32 mín.


Úrslitasundið var æsispennandi og voru fimm keppendur sem gerðu grimmt tilkall í gullið en silfrið fór til Bretans Tom Hamer sem synti á 1.56.58 mín og bronsið fór alla leið til Ástralíu þar sem Daniel Fox synti á tímanum 1.56.69 mín.


Jón á enn tvær greinar eftir en á morgun er það Thelma Björg Björnsdóttir sem keppir í 200m fjórsundi.