Ísland sendir fimm fulltrúa á Rio Paralympics!


Dagana 7.-18. september næstkomandi fara Paralympics (Ólympíumót fatlaðra) fram í Rio de Janeiro í Brasilíu. Eins og alkunnugt er orðið fara Paralympics fram á sama stað og við sömu aðstæður og sjálfir Ólympíuleikarnir. Að þessu sinni tókst fimm afreksmönnum úr röðum fatlaðra að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. Hópinn skipa þrír sundmenn, frjálsíþróttamaður og í fyrsta sinn í íslenskri íþróttasögu mun bogfimikeppandi verða fulltrú Íslands á leikunum.
 
Íþróttasamband fatlaðra kynnir með stolti keppendur Íslands á Paralympics 2016:
 
Jón Margeir Sverrisson – sund - Fjölnir
Sonja Sigurðardóttir – sund – ÍFR
Thelma Björg Björnsdóttir – sund – ÍFR
Helgi Sveinsson – frjálsar – Ármann
Þorsteinn Halldórsson – bogfimi – Boginn
 
Ánægjulegt er að greina frá því að Íslandi tekst að fjölga um einn keppanda á Paralympics frá London 2012 en þá átti Ísland fjóra fulltrúa, tvo í sundi og tvo í frjálsum. Það fjölgar því einnig um eina íþróttagrein og ljóst að afreksmenn úr röðum fatlaðra eru á mikilli siglingu þessi dægrin.
 
Eins skal tekið fram að nokkur fjöldi reyndi linnulaust við Paralympic-lágmörkin þetta árið og því enn ánægjulegra að sjá að hópurinn fer ört stækkandi sem ætlar sér að taka þátt í stærsta íþróttaverkefni hvers fatlaðs afreksmanns.

Mynd/ Efri röð frá vinstri: Jón Margeir Sverrisson, Þorsteinn Halldórsson og Helgi Sveinsson.
Neðri röð frá vinstri: Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir.